Wednesday, September 7, 2011

Tæp vika í brottför!

Þetta styttist óðum, ég er þó hvorki stressuð né spennt, en ég held að það sé bara vegna þess að ég er ekki enn búin að fatta að ég sé að fara. Ég fór yfir fataskápinn minn um daginn og tók þau fáu föt sem ég ætla með (systur minni til ómældrar ánægju) til hliðar, auk þess að ég fann til svefnpoka og fleiri nauðsynjar, að ógleymdu höfuðljósinu sem móðir mín keypti handa mér um daginn. Ég lít að vísu út eins og smávaxinn námumaður með það, en þetta er víst bráðsniðugt að eiga þegar að kvölda tekur, vilji maður lesa eða bara sjá fram fyrir sig.

Ég fór einnig til læknis og fékk ósköpin ein af lyfseðlum, þrátt fyrir að ég sé hætt við að taka malaríutöflurnar. Þær eru illa rándýrar og úrþví að Ólafía gat ferðast um allt Indland í fjóra mánuði án þeirra þá hlýt ég að lifa þetta af. Hins vegar tók ég nóg af Immodium, því þó svo að ég geri alveg ráð fyrir því að fá í magann þarna úti er óþarfi að eyða mörgum vikum með Gullfoss og Geysi, svo vel sé að orði komist. Einnig tók ég nóg af sýklalyfjum, fúsitíni og eitt stykki lúsasjampó.. namm.

Það sem hefur hjálpað mínum undirbúningi mikið er m.a. listi og fleira sem ég fékk hjá elsku Kristínu hjá AUS, auk þess sem að ég hitti stúlku að nafni Sóley sem var í sama verkefni og ég er að fara í og hún sagði mér margt og mikið og sýndi mér myndir af umhverfinu og fólkinu, sem var æðislegt að sjá.

Ég ætla líka að reyna að vera dugleg að setja inn myndir á þetta blogg og bara vera dugleg að skrifa hér almennt, þó það sé auðvitað alltaf spurning um rafmagns/tölvu/netaðgengi.

Ég flýg til London 13 september og verð þarf yfir nótt, aðallega vegna þess að móðir mín þekkir dóttur sína ágætlega og taldi það öruggara að hafa nægan tíma fyrir stúlkuna að finna hvert hún á að fara til að tékka sig inn og svoleiðis, enda verð ég seint kölluð sú ratvísasta, hvað þá á ókunnugum slóðum. Daginn eftir flýg ég beint til Bangalore. Hvað gerist næst verður bara að koma í ljós, en ég stefni á heimkomu 21 desember, ekki slæmt að koma beint heim í jólin, og þá get ég farið að panika yfir því hvað ég á að gera við líf mitt hehe.

En þangað til ætla ég að njóta lífsins á Indlandi og leyfa öllum þeim sem nenna að lesa að fylgjast með!

No comments:

Post a Comment